Færsluflokkur: Bloggar
12.8.2013 | 16:24
Gefst upp !!!
Búin að gefast upp á þessu Mogga-Bloggi. Allavega í bili.
Nýtt: http://korstjorikeyrir.blogspot.com/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2013 | 22:40
Hringferð með 11 Spánverja
Ferðalag Spánverjanna hófst laugardaginn 20.júlí á Gullna hringnum, en þann dag keyrði ég ekki rútu, heldur spilaði í brúðkaupi í Grindavík.
En á sunnudagsmorgunn sótti ég hópinn á hótel Natura og við lögðum af stað í hringferð.
Byrjuðum á að fara í Borgarfjörð og skoða Hraunfossa og Deildartunguhver. Stoppuðum aðeins í Baulu en svo labbaði hópurinn á Grábrók. Bílstýran hafði hugsað sér að hvíla augun sín á meðn og hafði komið sér vel fyrir í sætinu þegar síminn hringdi. Þetta var frá Trex því kreditkort hafði orðið eftir í sjoppunni Baulu og ég varð að keyra til baka og sækja það. Það var Senjora Rosa sem átti kortið og var hún heldur þakklát fyrir björgunina.
Hádegisverður var á Hótel Staðarsel
Snyrtileg aðkoma. Gestamóttakan mjög flott.
Setustofa er inn af matsalnum. Og einnig sérstök borðstofa.
Næst var stoppað í Varmahlíð.
Skín við sólu Skagafjörður! Niður af Öxnadalsheiði.
Komið til Akureyrar kl 5. Kvöldverður á hótel Eddu - hlaðborð. Ég gisti á KEA en ekki með hópnum og labbaði á milli hótela. Hér getur að líta það sem ég sá á leiðinni.
Um morguninn labbaði ég til að sækja rútuna, setti farangurinn minn inn í skottið og klofa síðan yfir beislið....nema hvað, að táin þurfti endilega að krækja sér í rafmagnssnúruna svo rútubílastýran flaug náttúrlega á nefið. Sem betur fer var gras undir.
Áætlun dagsins var Mývatnssveit, en á leiðinni stoppað við Goðafoss og hann skoðaður í bak og fyrir. Þorgeirskirkja er "Vegkirkja" í sumar og opnar kl 10.00. Ég bjóst við að kirkjuvörðurinn, hún Jara myndi mæta, en klukkan á slaginu 10.00 keyrir sjálfur Sr. Bolli Pétur í hlað á pínu-litlum bíl. Það voru náttúrlega fagnaðarfundir og bauð hann alla velkomna inn. Daginn áður hafði verið hjá honum messa þar sem sungin voru ættjarðarlög og vildi hann endilega syngja fyrir hópinn "Heiðarbýlið", svo rútubílastýran settist við flygilinn og spilaði undir. Svo stakk Bolli uppá því að syngja "Í bljúgri bæn" og við sungum það lag saman.
Flotti Dúettinn! Rútubílastýran og presturinn. Svo gat Bolli Pétur flaggað.
Þegar norður var komið fórum við fyrst í Námaskarð og Víti en eftir stutt stopp í skarðinu til myndatöku, sýndi ég þeim staðinn þar sem rúgbrauðið er bakað í holum. Svo komum við í Grjótagjá og síðan að Hverfjalli. Þar upp labbaði ég með þeim, en aðeins elstu hjónin fóru ekki upp.
Útsýnið er fallegt þarna uppi . . . . . . til beggja handa.
Leiðin er nokkuð brött og tók seinni hlutinn verulega á í uppgöngunni, en þótt minna mál sé að fara niður, þá var mölin og sandurinn laust og auðvitað rann rútubílastýran á rassinn.
Svo var hádegismatur á Selhóteli og þar eftir gígarnir þar og svo Dimmuborgir. Þá var keyrt norður Hólasandinn en niður í Aðaldal fórum við og keyrðum út hjá Hvammsbæjum og til Húsavíkur.
Um kvöldið fóru aðeins 3 úr hópnum í hvalaskoðun, en Dóra mín kom úteftir og við löbbuðum rúnt í bænum.
Stundum látum við illa . . . . . . . . en stundum erum við eins og ráðsettar frýr.
Næsti dagur hófst á því að ekið var út á Tjörnesið en ekki gefinn tími til að stoppa á Mánárbakka, en tekinn göngutúr í Ásbyrgi sem er náttúruundur.
Heldur var svo vegurinn að Dettifossi lélegur og fann ég mikið til með bílnum. En gönguna niður að fossi fór ég með hópnum.
Var að spjalla við bílstjóra á bílastæðinu og þá var einn að koma frá Breiðdalsvík en annar á leið þangað. Ég bað hann fyrir kveðjur til Friðriks hótelstjóra frá frænkunni sem keyrir rútu.
Hádegisverður var snæddur í Grímstungu og vegurinn þangað er HRÆÐILEGUR. Skil ekki í bílstjórum sem samþykkja að keyr alla leið að Dettifossi á þessum vegi.
Hitinn þarna var 26 gáður.
Veitingahúsið að Grímstungu.
Á leiðinni niður af Möðrudalsöræfum eru nokkrir fossar sem heita víst allir Þjótandi og stoppuðum við við þann stærsta og löbbuðum dáldið til að ná góðum myndum.
Þegar komið var til Egilsstaða gaf leiðsögumaðurinn, hún Kristín smá frjálsan tími í miðbænum, en svo keyrt í Hallomsstað.
Lagt af stað kl 8.30 áfram hringsælis um landið.
Keyrðum í gegnum þorpið á Fáskrúðsfirði en svo bara áfram til Stöðvarfjarðar þar sem boðið var uppá stopp við steinasafnið.
Það voru bara fullorðnu hjónin sem tímdu að kaupa sig þar inn, hinir röltu bara um á meðan.
Séð heim til Breiðdalsvíkur, en við stoppuðum ekkert þar. Ég hringdi í Friðrik frænda og hann þakkaði strax fyrir kveðjuna frá deginum áður. Sagði mér að Borgþór hefði komið einu sinni síðan við vorum þarna saman og að hann væri væntanlegur daginn eftir eða þarnæsta dag.
Þarna sést í botni dalsins vegurinn upp á Öxi. Hann styttir leiðina til Egilsstaða mikið, en í góðum veðrum er gaman að keyra firðina. Og þótt þokan hafi legið yfir hér og þar þegar við vorum þarna, þá var mikil náttúrufegurð þegar henni létti.
Á Djúpavogi var hádegisverðurinn okkar þennan daginn. Ágætis súpa, ekkert sérstakur saltfiskur og eftirrétturinn var alveg í lagi. Kristín hafði frétt af listaverki við ströndina á aðeins öðrum stað en við vorum, svo við keyrðum þangað til að berja þetta augum.
Þetta eru egg úr graníti, öll svipuð að stærð, en hvert með sinni lögun eftir fuglategund. Stólparnir voru þarna steyptir og ónotaðir eftir að hafa verið undir einhverskonar leiðslu frá bryggju í vinnsluhús. Listamaðurinn sá þetta og notaði alla stöplana undir eggin.
Sumir eru safnarar fram í fingurgóma !!
Ekki bar leiðsögumönnum mínum tveimur saman um það hvað þessi staður heitir, Hvalnesskriður eða Þvottaskriður. Ég vil gjarnan fá rétt nafn á þetta ef einhver veit.
Almannaskarð var lengi hættulegt og eftir dauðaslys þar var ráðist í gerð ganga. Við keyrðum fram á brúnina til þess að sjá útsýnið og hvar vegurinn lá.
Gist var á Hótel Höfn og ekki var ústýnið úr herbergisglugganum neitt slæmt.
Bloggar | Breytt 27.7.2013 kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2013 | 22:30
Landeyjarskutl
Leiðsögumaðurinn Björn Rúriksson er tilbúinn í Þingholtunum kl 5.20 og við keyrum suður í flugstöð til að sækj 4 bandarískar konur úr OAT 38 sem fara til Eyja. En vega lélegs útsýnis förum við ekki Suðurströnd heldur Hellisheiði.
Ég keyri svo með farangur í bæinn og skila honum á Hilton.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2013 | 22:26
OAT ferð 6.-16. Júlí
Pétur Gauti Valgeirsson fyrrum nágranni minn er leiðsögumaður í þessari ferð, en farþegarnir eru 6 talsins, þrenn bandarísk hjón sem eru vinir og hafa ferðast mikið saman.
Meira seinna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2013 | 22:23
Farþegar sóttir undan Eyjafjöllum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2013 | 22:15
Skutl í Landeyjarhöfn
Að morgni 2. Júlí sæki ég Odd leiðsögumann kl 5 til að ná í nokkra farþega frá USA.
Keyrður er Suðurstrandarvegurinn frá Grindavík.
Stoppað á Selfossi þar sem borðaður er morgunverður. Þaðan keyrt áfram austur en með stoppi við Urriðafoss sem er vatnsmesti foss landsins.
Komið í Landeyjarhöfn um kl 11. Þar var einn vinur Gylfa Björgvins sem bað um far á Hellu. Ég kom við á Hestheimum, en Lea og Marteinn voru í hestaferð.
Bloggar | Breytt 12.8.2013 kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2013 | 21:23
Fyrsta hringferðin
Þann 23. júní hófst mín fyrsta hringferð með erlenda ferðamenn. Ég byrjaði á því að sækja leiðsögumanninn Borgþór Kjærnested um miðjan dag og fara með hann suður á flugvöll þar sem við sóttum 12 finnska ferðamenn.
Mamma og pabbi vissu af mér á nýju rútunni svo þau komu upp flugstöð til að hitta okkur. Þau eru alltaf svo miklar dúllur :)
Fyrst á áætluninni var Bláa Lónið og svo á hótel Cabin. Þar eyddu Finnarnir fyrstu nóttinni á Íslandi en við sóttum þau morguninn eftir kl 8 til að byrja ferðalagið.
Dagur 2:
Leiðsögumaðurinn ákvað að fara Nesjavallaleiðina og fyrsti göngutúr ferðalanganna var smáspölur í hrauninu á leiðinni. Svo var stoppað við Hakið á Þingvöllum og fólkið gekk niður að bílastæðinu. Áfram var keyrt að Geysi og Gullfossi eins og lög gera ráð fyrir. Hádegisverður snæddur og allt það.
En svo var næst stoppað í Skálholti að minni beiðni og þar fór ég í orgelskóna og spilaði eitt stykki á orgelið. Held að fólkið hafi kunnað vel að meta það, en vegna þess hve túrinn var ungur ennþá brast enginn í grát.
Eftir þetta var svo keyrt að Seljalandsfossi þar sem mesta upplifunin er að ganga á bak við fossinn. Einnig skoðuðu ferðalangarnir Skógarfoss og safnið að Skógum.
Keyrt var lengra austur og náttstaður var Hótel Dyrhólaey, ágætis hótel og fínasti matur, en salarkynni helst til kuldaleg og of mikill hljómburður ... svona glymjandi þar inni. En vel sváfum við og enn var rigning og lítið sem ekkert útsýni.
Af Fésbókinni: Allt gengið vel í dag, en ég skil alls ekki leiðsögumanninn .... hann malar allan daginn og er örugglega hafsjór af fróðleik .... en ég bara kann ekkert í FINNSKU ;(
Dagur 3:
Lögðum af stað kl 8 og keyrðum fyrst í Reynisfjöru en því næst var stoppað í Víkurprjóni. Ég hafði ekki fengið upplýsingar um sérkjör bílstjóra, svo ég keypti tveir fyrir einn tilboð af angórusokkunum góðu.
Kirkjubæjarklaustur er næsta stopp og eftir smá kaffi/klósett stopp á sjoppunni, gengur hópurinn að "kirkjugólfinu" sem er bara smá göngutúr og áfram keyrum við svo.
Rétt áður en afleggjarinn að Skaftafelli kemur, er minnisvarði og upplýsingaskilti hægra megin við veginn. Þar er t.d. brot úr brú sem eyðilagðist. Borgþór vildi stoppa þarna smá stund og ég var að fylgjast með fólkinu sem þarna var, þegar mér fannst ég kannast við vangasvip á konu sem var að setjast inn í bíl spotta frá rútunni. Ég tók upp símann og hringdi í Magnþóru úr Þorlákshöfn og spurði hana hvort hún væri í Skaftafelli - Já !!!
Þá erum við komin í Skaftafell og hópurinn er keyrður áleiðis upp, en gengur restina að Svartafossi og niður í þjónustumiðstöðina, þar sem bílstýran beið þeirra. Fólkið fær sér hressingu, súpu og fleira svo allir fá kraft í kroppinn til að halda áfram. Það næsta er að sigla á Jökulsárlóni og þar sem ekki var í boði að ég færi með, þá fékk ég bílstjórakaffi-og-vöfflu sem var bara fínt. Þarna var mikill erill, margt fólk og allir 4 bíl/bátarnir í notkun. Ég vissi ekkert með hvaða báti mitt fólk fór og vissi varla hvað tímanum leið og setti því inn á Fésbókina að ég væri búin að týna Finnunum og spurði "Hvernig finn ég Finna?" Ekki var sökum að spyrja að athugasemdum rigndi inn með hlátrasköllum og útúrsnúningum á alla kanta. En einhverra hluta vegna finnast ekki þessar færslur núna á Fésbókinni.
Þessi færsla er þó þar ennþá: Náttstaður nr.2 - Fosshótel Skaftafell. Finnar fundnir allir úttroðnir af góðum mat og sumir farnir í kvöldgöngu fyrir svefninn. Veður milt og fallegt. Over and out !
Eitt ómögulegt við dag 3 - að keyra framhjá náttstaðnum okkar 60km í Lónið og þurfa svo að keyra til baka í Freysnes. Þetta gera óþarfa lengingu á ferðinni um 120km, en svona er þegar vantar gistirými.
Dagur 4:
Ég hugsaði um morguninn að það væri gott að ekki hefði veðrið batnað um nóttina, svo við þurftum ekki að sjá eftir því að hafa verið á Jökulsárlóni daginn áður. Ef sólin hefði skinið, eða bara haldist þurrt þá gat verið að fólkið yrði pínu svekkt. En veðurguðirnir ákváðu að vera ekkert að hringla í þessu og létu bara rigninguna halda áfram, meira að segja með smá roki líka á köflum.
Við tókum smá rúnt á Höfn og keyrðum niður að höfn, en þar er eitthvert minnismerki sem ég man engin deili á lengur. Þarf að kíkja þangað aftur og rifja upp !!!!
Rétt fyrir austan Höfn er oft hægt að sjá hreindýr mjög nálægt veginum og eiginlega innan girðingar. Ég hafði ekki hugann alveg við þetta og keyrði bara nánast í fluggírnum. Sá eftir því seinna að hafa ekki hreinlega snúið við, því ég veit að dýrin voru þarna, en við sáum aldrei nein hreindýr uppi á Héraði eða á Öræfunum.
Þarna erum við stopp á útskoti í Hvalnesskriðum í roki og rigningu.
Á Djúpavogi er þetta hús og flott hreindýr búið til úr hreindýrshornum.
Mínir þreyttu fætur að kvöldi dags.
Fallegt sumarkvöld við Lagarfljót.
Hótel Hallomsstaður er fínasta hótel og mjög góður matur þar.
Næsta mogunn hófst ferðin við Skriðuklaustur. Þar var enginn maður mættur svo ekki fórum við inn.
Þetta hús, sem Gunnar Gunnarsson skáld lét byggja og gaf þjóðinni, er mjög fallegt að utan. Ég vona að ég eigi einhverntímann eftir að koma þarna aftur og sjá innviðina og safnið um skáldið.
Við Kröflu keyrðum við að Víti, svona til að sýna Finnunum alvöru gíg og láta þá ímynda sér HEL !! Einnig stoppuðum við hjá hverasvæðinu í Námaskarði. Svo var gerður stans við Jarðböðin þar sem fólkið fékk sér hádegismat. Þá var næst að skoða Grjótagjá, Dimmuborgir og gígana í Skútustöðum. Einnig kíktum við í fuglasafnið áður en keyrt var í Laugar þar sem við gistum í skólahúsinu. En þegar ég var búin að þrífa rútuna, komu Guðmundur og Dóra og sóttu mig heim til sín. Þar var góður matur að vanda og yndisstund með sómafólkinu mínu í Fellsmúla.
Næsti dagur hófst með heimsókn að Goðafossi. Ég ætlaði að fara með hópinn í Þorgeirskirkju, en hún yrði ekki opnuð fyrr en kl 10.00 og það var ómögulegt að bíða eftir því, svo við héldum áfram til Akureyrar. Þar var gefinn frjáls tími svo fólk gæti skoðað sig um í Lystigarðinum og miðbænum. Þarna við Eymundsson hitti ég hana Elínu Oddgeirs og spjölluðum við smá stund í sólskininu. Áfram var svo ferðinni haldið og næsta stopp ekki fyrr en í Varmahlíð.
Bloggar | Breytt 5.8.2013 kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2013 | 01:29
Hætt hjá Teiti.
Ég var búin að tilkynna það að ég vildi hætta hjá Teiti og síðasti dagurinn átti að vera föstudagurinn 21. júní. Þá var ég búin að setja nýjan starfsmann inn í Sunnuhlíðarbílinn og sjálf búin að fá loforð um vinnu hjá Reyni Jóhannssyni á Akranesi. Ég kvaddi alla á stöðinni hjá Teiti um hádegi og þakkaði fyrir mig.
Klukkan 4 sama dag hringir Ágúst Ísfeld í mig: Gróa, hvernig ertu á morgun? Jú, ég er örugglega góð á morgun, segi ég. Já, það er hópur af stelpum að fara að gæsa vinkonu og þær biðja nebblega um HRESSAN og SKEMMTILEGAN bílstjóra !!!!! Geturðu tekið þetta? Auðvitað get ég það :)
Þetta var skemmtilegur dagur sem byrjaði kl 12.30 þegar ég sótti hópinn í íþróttahúsinu við Smáraskóla. Þaðan var varið í dansskóla og snæddur léttur hádegisverður og svo dansað súmba og allt hvað þetta nú heitir. Eftir það var farið í Smáralindina og þar fóru stelpurnar í Ævintýragarðinn en ég settist bara í stól á ganginum. Koma þá ekki mamma og pabbi labbandi, en pabbi var búinn að vera að undirbúa að tengja heitan pott á pallinum hjá mér. Gylfi Björgvin var að hjálpa til þennan dag og boraði gat í sökkulinn á húsinu til að koma frárennslinu úr pottinum í rétta grein.
Við fengum okkur kaffi þarna í Smáralindinni og settumst svo út í sólina. Þegar stelpuhópurinn kom svo út, þá var gæsin að sníkja klink af fólki og mamma og pabbi áttu eitthvað lítið af klinki en vildu endilega gefa henni fimmhundruðkall. Þar með átti ég yndislegustu foreldra í heiminum .... :) eins og ég hafi ekki vitað það ????
Jæja, áfram hélt partýið og nú var keyrt í heimahús til að ná í batterí í videovél, en svo var haldið niður í miðbæ Reykjavíkur. Ég hleypti þeim út við Austurvöll og hitti þær svo aftur við Bæjarins Bestu klukkutíma síðar en þá höfðu þær farið inn í Kolaportið líka.
Svo var kominn tími að fara með gæsina í beina útsendingu á Bylgjunni hjá Sigga Hlö. Akkúrat þegar við vorum að keyra að húsinu var hringt inn í útsendinguna og pantað lag .... það var þá væntanlegur brúðgumi gæsarinnar okkar :)
Eftir útsendingu á Bylgjunni keyrðum við niður í Nauthólsvík og þar löbbuðu þær um svolitla stund, en svo keyrði ég þær suður í Hafnarfjörð og skildi við þessar skemmtilegu stelpur. Tvær vildu fá símanúmerið mitt til að geta pantað þennan frábæra bílstjóra aftur seinna !!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2013 | 01:13
Aukakeyrslan
Yfirleitt fékk ég enga aukavinnu á kvöldin virka daga, en það kom fyrir um helgar að ég fékk smá að gera.
T.d. var það laugardag einn að ég mætti um hádegi í Ármúlann og sótti 9 manns af ákveðnum vinnustað þar, en þau voru að eyða deginum í að "lyfta sér upp" og "efla liðsandann" eins og svona lagað heitir. Við keyrðum svo austur og fórum Þrengslin, því á sandinum á leið austur að Ölfusárósi er skotsvæði þar sem þau voru búin að panta að skjóta 10 leirdúfur á mann.
Einhverjir hittu eina eða tvær, einhverjir hittu enga en sá sem hitti flestar stútaði 7 stk.
Svo keyrðum við á Stokkseyri og þau fóru á sjoppuna þar að fá sér að borða. Ætluðu að kíkja í draugasetrið, en það var víst ekki hægt. En kl 4 áttu þau pantað kajaksiglingu rétt við sundlaugina á Stokkseyri. Tvær af stelpunum fóru nú ekki í það ævintýri, en þegar hersingin kom til baka blaut og hrakin fóru þau öll í sund og skríktu og hlóu.
En eftir þetta allt, var mamma eins stráksins búin að elda humarsúpu heima hjá sér og þangað héldum við. Mér var boðið inn í súpu sem var alveg snilldar-gómsæt hjá konunni. Svo var ekið til baka til Reykjavíkur og fór hópurinn í heimahús til að halda áfram að skemmta sér saman. Þar kvaddi bílstýran hópinn og sumir krakkarnir föðmuðu mig að skilnaði.
Daginn eftir, sunnudaginn 9.júní skyldi ég vera komin kl 8 um morguninn við skála í Bláfjöllum að sækja gönguhóp þar sem þau skildu eftir bílana sína. Mér var nú ekkert sagt hvar þessi skáli ætti að vera og því keyrði ég upp í Bláfjöll og kíkti við alla skálana þar, en sá engan hóp bíðandi eftir mér. Sem betur fer var ég með símanúmer og hringdi í konuna. Ég átti þá alls ekkert að vera upp í Bláfjöllum, heldur væri Slysavarnarskýli á veginum milli Bláfjallavegarins og Hafnarfjarðar. Jæja ég bara sneri við á punktinum og keyrði spöl til baka, fann afleggjarann og brunaði eftir malarvegi eins greitt og ég þorði. Á gjörsamlega réttum tíma (eða kannski 5 mínútum of seint) var ég kominn á réttan stað og fólkið rann inn í rútuna. Keyrði ég nú með hópinn í Krýsuvík og áfram niður að Suðurstrandarvegi, í Vogsósa, en þar ætluðu þau að byrja gönguna yfir í bílana sína aftur.
Eftir að hafa hleypt þeim út úr bílnum, keyrði ég niður í hverfið við Strandakirkju og kom í kaffihúsið þar. Fékk þar kaffibolla og smá spjall eftir að hafa notað þar klósettið fyrst.
Eitt kvöldið í vikunni þarna á eftir var ég send á bíl upp í Borganes því það þurfti að skipta á bílum við hóp. Hreinn Smári var þar og ég keyrði svo með honum í bæinn á algjörum trukk !!!
Næst-síðasta vinnudaginn hjá Teiti var ég svo send til að keyra fótboltastelpur úr HK til Selfoss að keppa. Þær unnu sem betur fer leikinn :) bara gaman að því !!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2013 | 22:12
Þingvallaferð á þjóðhátíðardaginn
Stórt skemmtiferðaskip var í höfn á 17. júní og bauðst mér að fara með hóp á stóru rútunni og keyra Gullna hringinn. Leiðsögumaður var með í för, þýsk kona sem býr á Íslandi. Farþegar voru 47 Þjóðverjar.
Þegar ég kom á Þingvöll var skýjað, en milt og fallegt veður. Allan daginn var ég að vona að sólin færi að láta sjá sig, en ekki varð mér að þeirri ósk. Sama er, að það er fallegt á Þingvöllum.
Bílastæðin þar sem rúturnar stoppa eru stundum yfirfull og getur verið erfitt að snúa þar við.
Ferðafólkið kemur gangandi niður Almannagjá frá Hakinu. Og eftir þetta stopp er keyrt að Geysi.
Þar var gott stopp og borðaður hádegisverður. Þar hitti ég Þórð, son Guðmundar og Ingu Rósu en hann er bílstjóri hjá SBA Norðurleið. Einnig hitti ég hann Halldór bílstjóra hjá GJ travel, en hann er sérlegur bílstjóri í ferðum Söngfugla :)
Þá fór hópurinn að Gullfossi, en skyggni var ekki gott svo ekki sást til jökla þennan dag. Síðan er keyrt niður Grímsnesið til Hveragerðis og stoppað þar við Listasafnið. Þar hitti ég m.a. hana Ingu sem rekur safnið og manninn hennar hann Þorgils sem syngur í kirkjukórnum, en vinnur sem lyfjafræðingur. En ég hitti líka hana Aldísi bæjarstjóra og hún sagði mér söguna frá því að hún og maður hennar voru á ferð í Ljubliana í Slóveníu fyrr í sumar. Þar komu þau inn í plötubúð og þegar afgreiðslumaðurinn heyrði undarlegt tungumál þeirra, spurði hann hvaðan þau væru. Já, Íslandi. "Ja, þú þekkir nú örugglega Björk og Sigurrós" sögðu þau við hann. "NEI, bara Sigurð Guðmundsson. He's my hero" svaraði maðurinn í búðinni. Hann hafði þá verið á tónleikunum þegar Siggi kom þar fram í þeirra "Hörpu".
Við renndum heim að orkuverinu á Hellisheiði, en ekkert var farið þar inn. Síðan lá leið í bæinn, upp að Perlunni og þar hitti ég hann Ása bílstjóra hjá Teiti, en hann var að koma utan af landi með hóp. Mínum hóp skilaði ég svo á kajann aftur og við leiðsögumaðurinn fengum smá þjórfé frá farþegum í kveðjuskini, en ekki síður klapp á bakið og bros, því allir voru mjög ánægðir með daginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)