Hætt hjá Teiti.

Ég var búin að tilkynna það að ég vildi hætta hjá Teiti og síðasti dagurinn átti að vera föstudagurinn 21. júní. Þá var ég búin að setja nýjan starfsmann inn í Sunnuhlíðarbílinn og sjálf búin að fá loforð um vinnu hjá Reyni Jóhannssyni á Akranesi.  Ég kvaddi alla á stöðinni hjá Teiti um hádegi og þakkaði fyrir mig.

Klukkan 4 sama dag hringir Ágúst Ísfeld í mig:  Gróa, hvernig ertu á morgun? Jú, ég er örugglega góð á morgun, segi ég.  Já, það er hópur af stelpum að fara að gæsa vinkonu og þær biðja nebblega um HRESSAN og SKEMMTILEGAN bílstjóra !!!!!  Geturðu tekið þetta?  Auðvitað get ég það :)

Þetta var skemmtilegur dagur sem byrjaði kl 12.30 þegar ég sótti hópinn í íþróttahúsinu við Smáraskóla. Þaðan var varið í dansskóla og snæddur léttur hádegisverður og svo dansað súmba og allt hvað þetta nú heitir. Eftir það var farið í Smáralindina og þar fóru stelpurnar í Ævintýragarðinn en ég settist bara í stól á ganginum. Koma þá ekki mamma og pabbi labbandi, en pabbi var búinn að vera að undirbúa að tengja heitan pott á pallinum hjá mér. Gylfi Björgvin var að hjálpa til þennan dag og boraði gat í sökkulinn á húsinu til að koma frárennslinu úr pottinum í rétta grein.

Gæsin spjallar við ma+pa

 Við fengum okkur kaffi þarna í Smáralindinni og settumst svo út í sólina. Þegar stelpuhópurinn kom svo út, þá var gæsin að sníkja klink af fólki og mamma og pabbi áttu eitthvað lítið af klinki en vildu endilega gefa henni fimmhundruðkall. Þar með átti ég yndislegustu foreldra í heiminum .... :) eins og ég hafi ekki vitað það ???? 

 Jæja, áfram hélt partýið og nú var keyrt í heimahús til að ná í batterí í videovél, en svo var haldið niður í miðbæ Reykjavíkur. Ég hleypti þeim út við Austurvöll og hitti þær svo aftur við Bæjarins Bestu klukkutíma síðar en þá höfðu þær farið inn í Kolaportið líka.

 

Svo var kominn tími að fara með gæsina í beina útsendingu á Bylgjunni hjá Sigga Hlö. Akkúrat þegar við vorum að keyra að húsinu var hringt inn í útsendinguna og pantað lag .... það var þá væntanlegur brúðgumi gæsarinnar okkar :)

Eftir útsendingu á Bylgjunni keyrðum við niður í Nauthólsvík og þar löbbuðu þær um svolitla stund, en svo keyrði ég þær suður í Hafnarfjörð og skildi við þessar skemmtilegu stelpur. Tvær vildu fá símanúmerið mitt til að geta pantað þennan frábæra bílstjóra aftur seinna !! 


Aukakeyrslan

Yfirleitt fékk ég enga aukavinnu á kvöldin virka daga, en það kom fyrir um helgar að ég fékk smá að gera.  

T.d. var það laugardag einn að ég mætti um hádegi í Ármúlann og sótti 9 manns af ákveðnum vinnustað þar, en þau voru að eyða deginum í að "lyfta sér upp" og "efla liðsandann" eins og svona lagað heitir. Við keyrðum svo austur og fórum Þrengslin, því á sandinum á leið austur að Ölfusárósi er skotsvæði þar sem þau voru búin að panta að skjóta 10 leirdúfur á mann.

Einhverjir hittu eina eða tvær, einhverjir hittu enga en sá sem hitti flestar stútaði 7 stk.

kajakSvo keyrðum við á Stokkseyri og þau fóru á sjoppuna þar að fá sér að borða. Ætluðu að kíkja í draugasetrið, en það var víst ekki hægt.  En kl 4 áttu þau pantað kajaksiglingu rétt við sundlaugina á Stokkseyri. Tvær af stelpunum fóru nú ekki í það ævintýri, en þegar hersingin kom til baka blaut og hrakin fóru þau öll í sund og skríktu og hlóu.

En eftir þetta allt, var mamma eins stráksins búin að elda humarsúpu heima hjá sér og þangað héldum við. Mér var boðið inn í súpu sem var alveg snilldar-gómsæt hjá konunni. Svo var ekið til baka til Reykjavíkur og fór hópurinn í heimahús til að halda áfram að skemmta sér saman. Þar kvaddi bílstýran hópinn og sumir krakkarnir föðmuðu mig að skilnaði.

 

Daginn eftir, sunnudaginn 9.júní skyldi ég vera komin kl 8 um morguninn við skála í Bláfjöllum að sækja gönguhóp þar sem þau skildu eftir bílana sína.  Mér var nú ekkert sagt hvar þessi skáli ætti að vera og því keyrði ég upp í Bláfjöll og kíkti við alla skálana þar, en sá engan hóp bíðandi eftir mér. Sem betur fer var ég með símanúmer og hringdi í konuna. Skáli  Ég átti þá alls ekkert að vera upp í Bláfjöllum, heldur væri Slysavarnarskýli á veginum milli Bláfjallavegarins og Hafnarfjarðar.  Jæja ég bara sneri við á punktinum og keyrði spöl til baka, fann afleggjarann og brunaði eftir malarvegi eins greitt og ég þorði.  Á gjörsamlega réttum tíma (eða kannski 5 mínútum of seint) var ég kominn á réttan stað og fólkið rann inn í rútuna.  Keyrði ég nú með hópinn í Krýsuvík og áfram niður að Suðurstrandarvegi, í Vogsósa, en þar ætluðu þau að byrja gönguna yfir í bílana sína aftur.

T-BÆR

 

Eftir að hafa hleypt þeim út úr bílnum, keyrði ég niður í hverfið við Strandakirkju og kom í kaffihúsið þar. Fékk þar kaffibolla og smá spjall eftir að hafa notað þar klósettið fyrst.

 

 

 

 

Eitt kvöldið í vikunni þarna á eftir var ég send á bíl upp í Borganes því það þurfti að skipta á bílum við hóp. Hreinn Smári var þar og ég keyrði svo með honum í bæinn á algjörum trukk !!!

Næst-síðasta vinnudaginn hjá Teiti var ég svo send til að keyra fótboltastelpur úr HK til Selfoss að keppa. Þær unnu sem betur fer leikinn :)  bara gaman að því !! 


Bloggfærslur 17. júlí 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband