18.7.2013 | 21:23
Fyrsta hringferðin
Þann 23. júní hófst mín fyrsta hringferð með erlenda ferðamenn. Ég byrjaði á því að sækja leiðsögumanninn Borgþór Kjærnested um miðjan dag og fara með hann suður á flugvöll þar sem við sóttum 12 finnska ferðamenn.

Mamma og pabbi vissu af mér á nýju rútunni svo þau komu upp flugstöð til að hitta okkur. Þau eru alltaf svo miklar dúllur :)
Fyrst á áætluninni var Bláa Lónið og svo á hótel Cabin. Þar eyddu Finnarnir fyrstu nóttinni á Íslandi en við sóttum þau morguninn eftir kl 8 til að byrja ferðalagið.
Dagur 2:
Leiðsögumaðurinn ákvað að fara Nesjavallaleiðina og fyrsti göngutúr ferðalanganna var smáspölur í hrauninu á leiðinni. Svo var stoppað við Hakið á Þingvöllum og fólkið gekk niður að bílastæðinu. Áfram var keyrt að Geysi og Gullfossi eins og lög gera ráð fyrir. Hádegisverður snæddur og allt það.
En svo var næst stoppað í Skálholti að minni beiðni og þar fór ég í orgelskóna og spilaði eitt stykki á orgelið. Held að fólkið hafi kunnað vel að meta það, en vegna þess hve túrinn var ungur ennþá brast enginn í grát.
Eftir þetta var svo keyrt að Seljalandsfossi þar sem mesta upplifunin er að ganga á bak við fossinn. Einnig skoðuðu ferðalangarnir Skógarfoss og safnið að Skógum.
Keyrt var lengra austur og náttstaður var Hótel Dyrhólaey, ágætis hótel og fínasti matur, en salarkynni helst til kuldaleg og of mikill hljómburður ... svona glymjandi þar inni. En vel sváfum við og enn var rigning og lítið sem ekkert útsýni.
Af Fésbókinni: Allt gengið vel í dag, en ég skil alls ekki leiðsögumanninn .... hann malar allan daginn og er örugglega hafsjór af fróðleik .... en ég bara kann ekkert í FINNSKU ;(
Dagur 3:
Lögðum af stað kl 8 og keyrðum fyrst í Reynisfjöru en því næst var stoppað í Víkurprjóni. Ég hafði ekki fengið upplýsingar um sérkjör bílstjóra, svo ég keypti tveir fyrir einn tilboð af angórusokkunum góðu.
Kirkjubæjarklaustur er næsta stopp og eftir smá kaffi/klósett stopp á sjoppunni, gengur hópurinn að "kirkjugólfinu" sem er bara smá göngutúr og áfram keyrum við svo.
Rétt áður en afleggjarinn að Skaftafelli kemur, er minnisvarði og upplýsingaskilti hægra megin við veginn. Þar er t.d. brot úr brú sem eyðilagðist. Borgþór vildi stoppa þarna smá stund og ég var að fylgjast með fólkinu sem þarna var, þegar mér fannst ég kannast við vangasvip á konu sem var að setjast inn í bíl spotta frá rútunni. Ég tók upp símann og hringdi í Magnþóru úr Þorlákshöfn og spurði hana hvort hún væri í Skaftafelli - Já !!!
Þá erum við komin í Skaftafell og hópurinn er keyrður áleiðis upp, en gengur restina að Svartafossi og niður í þjónustumiðstöðina, þar sem bílstýran beið þeirra. Fólkið fær sér hressingu, súpu og fleira svo allir fá kraft í kroppinn til að halda áfram. Það næsta er að sigla á Jökulsárlóni og þar sem ekki var í boði að ég færi með, þá fékk ég bílstjórakaffi-og-vöfflu sem var bara fínt. Þarna var mikill erill, margt fólk og allir 4 bíl/bátarnir í notkun. Ég vissi ekkert með hvaða báti mitt fólk fór og vissi varla hvað tímanum leið og setti því inn á Fésbókina að ég væri búin að týna Finnunum og spurði "Hvernig finn ég Finna?" Ekki var sökum að spyrja að athugasemdum rigndi inn með hlátrasköllum og útúrsnúningum á alla kanta. En einhverra hluta vegna finnast ekki þessar færslur núna á Fésbókinni.
Þessi færsla er þó þar ennþá: Náttstaður nr.2 - Fosshótel Skaftafell. Finnar fundnir allir úttroðnir af góðum mat og sumir farnir í kvöldgöngu fyrir svefninn. Veður milt og fallegt. Over and out !
Eitt ómögulegt við dag 3 - að keyra framhjá náttstaðnum okkar 60km í Lónið og þurfa svo að keyra til baka í Freysnes. Þetta gera óþarfa lengingu á ferðinni um 120km, en svona er þegar vantar gistirými.
Dagur 4:
Ég hugsaði um morguninn að það væri gott að ekki hefði veðrið batnað um nóttina, svo við þurftum ekki að sjá eftir því að hafa verið á Jökulsárlóni daginn áður. Ef sólin hefði skinið, eða bara haldist þurrt þá gat verið að fólkið yrði pínu svekkt. En veðurguðirnir ákváðu að vera ekkert að hringla í þessu og létu bara rigninguna halda áfram, meira að segja með smá roki líka á köflum.
Við tókum smá rúnt á Höfn og keyrðum niður að höfn, en þar er eitthvert minnismerki sem ég man engin deili á lengur. Þarf að kíkja þangað aftur og rifja upp !!!!
Rétt fyrir austan Höfn er oft hægt að sjá hreindýr mjög nálægt veginum og eiginlega innan girðingar. Ég hafði ekki hugann alveg við þetta og keyrði bara nánast í fluggírnum. Sá eftir því seinna að hafa ekki hreinlega snúið við, því ég veit að dýrin voru þarna, en við sáum aldrei nein hreindýr uppi á Héraði eða á Öræfunum.
Þarna erum við stopp á útskoti í Hvalnesskriðum í roki og rigningu.
Á Djúpavogi er þetta hús og flott hreindýr búið til úr hreindýrshornum.
Mínir þreyttu fætur að kvöldi dags.
Fallegt sumarkvöld við Lagarfljót.
Hótel Hallomsstaður er fínasta hótel og mjög góður matur þar.
Næsta mogunn hófst ferðin við Skriðuklaustur. Þar var enginn maður mættur svo ekki fórum við inn.
Þetta hús, sem Gunnar Gunnarsson skáld lét byggja og gaf þjóðinni, er mjög fallegt að utan. Ég vona að ég eigi einhverntímann eftir að koma þarna aftur og sjá innviðina og safnið um skáldið.
Við Kröflu keyrðum við að Víti, svona til að sýna Finnunum alvöru gíg og láta þá ímynda sér HEL !! Einnig stoppuðum við hjá hverasvæðinu í Námaskarði. Svo var gerður stans við Jarðböðin þar sem fólkið fékk sér hádegismat. Þá var næst að skoða Grjótagjá, Dimmuborgir og gígana í Skútustöðum. Einnig kíktum við í fuglasafnið áður en keyrt var í Laugar þar sem við gistum í skólahúsinu. En þegar ég var búin að þrífa rútuna, komu Guðmundur og Dóra og sóttu mig heim til sín. Þar var góður matur að vanda og yndisstund með sómafólkinu mínu í Fellsmúla.
Næsti dagur hófst með heimsókn að Goðafossi. Ég ætlaði að fara með hópinn í Þorgeirskirkju, en hún yrði ekki opnuð fyrr en kl 10.00 og það var ómögulegt að bíða eftir því, svo við héldum áfram til Akureyrar. Þar var gefinn frjáls tími svo fólk gæti skoðað sig um í Lystigarðinum og miðbænum. Þarna við Eymundsson hitti ég hana Elínu Oddgeirs og spjölluðum við smá stund í sólskininu. Áfram var svo ferðinni haldið og næsta stopp ekki fyrr en í Varmahlíð.
Bloggar | Breytt 5.8.2013 kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)