Þingvallaferð á þjóðhátíðardaginn

Stórt skemmtiferðaskip var í höfn á 17. júní og bauðst mér að fara með hóp á stóru rútunni og keyra Gullna hringinn. Leiðsögumaður var með í för, þýsk kona sem býr á Íslandi. Farþegar voru 47 Þjóðverjar.

Á Þingvöllum IV  Þegar ég kom á Þingvöll var skýjað, en milt og fallegt veður. Allan daginn var ég að vona að sólin færi að láta sjá sig, en ekki varð mér að þeirri ósk.  Sama er, að það er fallegt á Þingvöllum.

Bílastæði á Þingvöllum Bílastæðin þar sem rúturnar stoppa eru stundum yfirfull og getur verið erfitt að snúa þar við.  

Á Þingvöllum Ferðafólkið kemur gangandi niður Almannagjá frá Hakinu. Og eftir þetta stopp er keyrt að Geysi.

Þar var gott stopp og borðaður hádegisverður. Þar hitti ég Þórð, son Guðmundar og Ingu Rósu en hann er bílstjóri hjá SBA Norðurleið. Einnig hitti ég hann Halldór bílstjóra hjá GJ travel, en hann er sérlegur bílstjóri í ferðum Söngfugla :)

Þá fór hópurinn að Gullfossi, en skyggni var ekki gott svo ekki sást til jökla þennan dag. Síðan er keyrt niður Grímsnesið til Hveragerðis og stoppað þar við Listasafnið. Þar hitti ég m.a. hana Ingu sem rekur safnið og manninn hennar hann Þorgils sem syngur í kirkjukórnum, en vinnur sem lyfjafræðingur. En ég hitti líka hana Aldísi bæjarstjóra og hún sagði mér söguna frá því að hún og maður hennar voru á ferð í Ljubliana í Slóveníu fyrr í sumar. Þar komu þau inn í plötubúð og þegar afgreiðslumaðurinn heyrði undarlegt tungumál þeirra, spurði hann hvaðan þau væru. Já, Íslandi. "Ja, þú þekkir nú örugglega Björk og Sigurrós" sögðu þau við hann.  "NEI, bara Sigurð Guðmundsson. He's my hero" svaraði maðurinn í búðinni. Hann hafði þá verið á tónleikunum þegar Siggi kom þar fram í þeirra "Hörpu".

Við renndum heim að orkuverinu á Hellisheiði, en ekkert var farið þar inn. Síðan lá leið í bæinn, upp að Perlunni og þar hitti ég hann Ása bílstjóra hjá Teiti, en hann var að koma utan af landi með hóp.  Mínum hóp skilaði ég svo á kajann aftur og við leiðsögumaðurinn fengum smá þjórfé frá farþegum í kveðjuskini, en ekki síður klapp á bakið og bros, því allir voru mjög ánægðir með daginn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband